Nova og Ljósleiðarinn hafa undirritað samning um nýtingu Ljósleiðara á landsvísu sem mun flýta fyrir uppbyggingu 5G enn frekar. Með þessu samstarfi gefst Nova ennfrekar kostur á að styrkja fjarskiptasambönd landsmanna og hraða uppbyggingu 5G á landsbyggðinni og þá sérstaklega á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Þá hafa 65 sendar þegar verið settir upp í öllum landshlutum og er áætlað að þeir verði orðnir 200 árið 2024.
Nova hefur frá upphafi verið í farabroddi í innleiðingu nýjustu tækni og er komið lengst í uppbyggingu 5G á Íslandi. Þá samdi Ljósleiðarinn nýverið við utanríkisráðuneytið um afnot af tveimur af átta ljósleiðaraþráðum í ljósleiðarastreng NATO. Sá strengur liggur hringinn í kringum Ísland og til Vestfjarða.
Samstarf Nova og Ljósleiðarans ýtir enn frekar undir það markmið stjórnvalda að fyrir árslok 2025 verði 99,9% þjóðarinnar með aðgengi að ljósleiðara. Aðgengi heimila, fyrirtækja og stofnana að öruggum fjarskiptum er mikilvægt í nútímasamfélagi. Uppbygging þessara innviða gegnir mikilvægu hlutverki í aukinni samkeppni á fjarskiptamarkaði og ekki síst fyrir heildsölu- og stórnotendur á landsbyggðinni
Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova:
„5G Nova er nú þegar komið upp í öllum landshlutum og mun eflast hratt á næstu mánuðum þar sem samstarf félagana gegnir lykilhlutverki. Fleiri og öflugri sendar auka öryggi landsmanna. Nova hefur fjárfest umtalsvert í innviðum sínum á síðustu árum sem hefur gert félaginu kleift að stíga mikilvæg skref sem þessi og halda áfram að vera leiðandi og í fremstu röð í innleiðingu 5G á Íslandi.”
Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans:
„Samstarf Ljósleiðarans og Nova styrkir okkur enn frekar í því markmiði að byggja upp öflugan landshring öllum landsmönnum til hagsbóta. Við ætlum að leggja ljósleiðarakerfi sem getur borið yfir 1000 þræði um allt land og með því fá allir landsmenn betra aðgengi og öruggari fjarskiptaþjónustu.“
Um Nova
Nova var stofnað árið 2006 og er nú orðið eitt af stærstu og öflugustu fjarskiptafyrirtækjum landsins. Fyrirtækið á og rekur sína eigin virku innviði vítt og breitt um landið. Hjá Nova starfa um 150 starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Selfossi. Nova hefur frá upphafi verið í farabroddi í innleiðingu nýjustu tækni og hefur fjárfest markvisst í uppbyggingu virkra innviða í sinni eigu sem mun tryggja Nova áframhaldandi forystu á fjarskiptamarkaði. Farsíma- og netkerfi Nova nær til 98% landsmanna. Hægt er að sjá nánar 5G uppbyggingu Nova hér
Um Ljósleiðarann
Ljósleiðarinn ehf. er fjarskiptafélag í eigu Orkuveitu Reykjavíkur sem annast rekstur og uppbyggingu Ljósleiðarans. Ljósleiðarinn er opið net og stendur öllum fjarskiptafélögum til boða að veita þjónustu sína um hann. Hlutverk Ljósleiðarans er að veita íslenskum heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða þjónustu á opnu aðgangsneti.