Elskum öll!
Fyrir þremur árum byrjuðum við geðræktar ferðalagið hjá Nova. Farsíminn og internetið eru nauðsynleg tæki en óhófleg notkun á sér dimmari hliðar, eins og með margt annað. Netið og snjallsímar eiga nefnilega að einfalda okkur lífið og gera það skemmtilegra, en þeir eiga ekki að taka það yfir. Við höfum á síðustu árum hvatt fólk til að leggja frá sér tækin og vera á staðnum, við tíndum af okkur spjarirnar í nafni líkamsvirðingar, við settum fókusinn á sjálfsvirðingu og mikilvægi þess að rækta sambandið við okkur sjálf og núna segjum við Elskum öll!
En afhverju erum við að benda á að við eigum að elska öll?
Á tímum þar sem við höfum aldrei haft það jafn gott þá höfum við aldrei verið jafn sundruð. Aldrei verið jafn ósammála. Aldrei verið jafn tortryggin í garð hópa sem við þekkjum ekki eða skiljum.
Fordómar eru vaxandi vandamál en 87% þjóða heimila til dæmis ekki hjónabönd einstaklinga af sama kyni. Hérna á Íslandi er aukin hatursorðræða í garð hinsegin fólks. Á síðasta ári var krotað yfir regnbogalistaverk við Grafarvogskirkju og regnbogafánar við stöð Orkunnar í Suðurfelli voru skornir niður. 15% nemenda í 6. til 10. bekk í grunnskóla segjast hafa orðið fyrir einelti á síðasta ári sem er 5% aukning á síðustu sjö árum samhliða aukinni notkun á miðlum eins og Instagram og Tiktok.
Internetið er stærsti skemmtistaður í heimi, en því miður er margt þar sem ýtir undir fordóma og hefur slæm áhrif á líðan okkar. Ef það hefur einhvern tímann verið þörf á að benda á að við erum öll eins og að við þurfum að elska öll þá er það núna.
Hvaðan sem við komum eða fæðumst, hvernig sem við erum á litin eða í laginu, hvort við erum hinsegin eða kynsegin eða hvort við erum með einn fót eða tvo þá eigum við öll þennan heim saman. Við eigum öll skilið að elska og vera elskuð skilyrðislaust – án fordóma og haturs.
Elskum öll hvert annað.